Umhverfis Linda- og Salahverfi
Þessi 9 km hjólaleið liggur um Linda- og Salahverfi og er öll innan landamerkja jarðarinnar Fífuhvamms, þar sem búið var fram yfir miðja 20. öld. Leiðin hefst við Salalaug og liggur í átt að Kópavogskirkjugarði. Þaðan er tekinn krókur að Hádegishólum þar sem má skoða tíbeska stúpu frá 1992, helgidóm búddista og hvalbak með jökulrispum frá síðustu ísöld. Hjólaleiðin heldur áfram að Lindaskóla þar sem má finna skóg og útikennslusvæði sem nemendur í hverfinu hafa ræktað. Á grónu svæði ofan skólans er fróðleiksskilti um jörðina Fífuhvamm og gamla bæinn Hvamm. Hjólað er áfram upp brattan stíg að Kórahverfi þar sem leiksvæði, vatnspóstar og bekkir bíða hjólandi ferðalanga. Útsýnið yfir Kópavog og sólarlagið er sérstaklega fallegt héðan. Áfram er svo haldið framhjá Markasteini, fornu landamerki frá tíma Viðeyjarklausturs, og síðan meðfram golfvelli Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar þar til leiðin endar aftur við Salalaug.
Salalaug